Ekki er loku fyrir það skotið að bankarnir sem aðild áttu að sambankalánum til allra föllnu bankanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, muni selja stórar kröfur sínar í bú þeirra. Forsvarsmenn þeirra banka hafa verið óánægðir með gang mála hér á landi frá því bankarnir féllu.

Markaður með kröfur í bú Landsbankans er þegar nokkuð virkur, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Minni fjármálastofnanir hér á landi hafa meðal annars komið að þeim viðskiptum sem miðlarar.

Hrun íslensku viðskiptabankanna þriggja, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis í október í fyrra leiddi af sér stórkostleg viðskiptatækifæri fyrir alþjóðlega vogunarsjóði. Skuldabréf útgefin af bönkunum fengust á slikk á haustmánuðum í fyrra og hafa fjárfestingar í þeim ávaxtast vel. Útlit er nú fyrir að þeir verði með hátt hlutfall allra krafna í bú Kaupþings og Glitnis vegna skuldabréfa, hugsanlega á bilinu 20-40 prósent. Þeir munu því verða eigendur hlutafjár í endurreistu bönkunum Arion banka og Íslandsbanka sem tekur mið af því hlutfalli. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er frekar horft til þess að eignarhlutur vogunarsjóða í Arion banka geti orðið hærri en í Íslandsbanka. Í tilfelli Arion banka verða erlendir kröfuhafar eigendur 87% hlutafjár á móti 13% hjá ríkinu. Hjá Íslandsbanka munu kröfuhafar eiga 95% hlut en ríkið 5%. Kröfulýsingarfrestur í bú Kaupþings rennur út 30. desember. Ekki mun endanlega skýrast hversu stórir hlutir einstakra kröfuhafa verða í endurreistu bönkunum fyrr en afstaða hefur verið tekin til krafna. Það mun ekki gerast fyrr en á næsta ári í öllum bönkunum.

Brunaútsala Skuldabréf bankanna seldust á uppboði erlendis sl. haust með miklum afslætti, þegar erlendir eigendur þeirra urðu að selja bréfin í takt við fjárfestingarreglur sem þeir fara eftir. Mikið framboð af skuldabréfum bankanna þýddi að bréfin fengust næstum gefins miðað við upphaflegt virði. Þar spilaði einnig inn í að aðstæður á fjármálamörkuðum voru mjög óljósar vegna mikils skjálfta í kjölfar þess að bankakerfi víða um heim voru á barmi hruns. Talið er að veltan á markaðnum undanfarið ár hafi verið 12-14 miljarðar evra, eða sem nemur tæplega 2.200 milljörðum króna. Í tilfelli Kaupþings og Glitnis seldust bréfin með 98% afslætti á fyrrnefndu uppboði en í tilfelli Landsbankans var mögulegt að kaupa bréfin með 99,9% afslætti. Ljóst var frá upphafi að kröfuhafar myndu fá lítið sem ekkert í sinn hlut vegna skulda Landsbankans við þá sem áttu pening inni á Icesave-reikningum bankans. Nú er ráð fyrir því gert að kröfuhafar muni eignast 20% í Landsbankanum en ríkið verði eigandi að 80% hlutafjár.

Risabankar miðla Stærstu viðskiptin með skuldabréf bankanna hafa átt sér stað með bréf sem gefin voru út erlendis. Alþjóðlegu risabankarnir JP Morgan, Morgan Stanley og Goldman Sachs hafa að mestu séð um að miðla bréfunum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Innlendar fjármálastofnanir hafa einnig gert það að litlu leyti, miðað við heildarumfang viðskiptanna, og hafa Saga Capital og HF Verðbréf m.a. komið að því. Goldman Sachs hefur verið einna stórtækastur í miðlun bréfanna. JP Morgan og Morgan Stanley hafa báðir komið að ráðgjafarstörfum eftir að íslenska bankakerfið hrundi. JP Morgan sá til að mynda um greiðslumiðlun við útlönd um tíma, samkvæmt samningi við Seðlabanka Íslands, og Morgan Stanley hefur gegnt ráðgjafarstörfum fyrir skilanefnd Kaupþings og fleiri. Þessar þekktu fjármálastofnanir koma því að íslensku efnahagslífi með ýmsum hætti, ekki síst að rústum föllnu bankanna.

Ítarlega er fjallað um uppkaup erlendra vogunar- og fjárfestingarsjóða á skuldabréfum föllnu bankanna í Viðskiptablaðinu í dag.