Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabankans sagði í samtali við Viðskiptablaðið að Seðlabankinn hafi aldrei útilokað að hægt væri að hreyfa stýrivexti á milli fyrirfram ákveðinna vaxtaákvörðunardaga bankans. En í kjölfar hugsanlegs verðbólguskots vegna þróunarinnar á gengi krónunar í gær og í dag hafa verið uppi vangaveltur um hugsanlegar aðgerðir Seðlabankans.

Arnór Sighvatsson sagði að þó að vissulega væri slík aðgerð ekki útilokuð þá hafi Seðlabankinn ekki gefið til kynna að hann hafi slíkt í hyggju nú. Ef gengisþróunin heldur áfram á þeirri braut sem hún er á núna þá munu nýjar verðbólguspár og í kjölfarið aðgerðir að sjálfsögðu endurspegla þá þróun sagði Arnór að lokum.