© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Líklegt má telja að almenn aflétting gjaldeyrishafta dragist enn frekar á langinn, segir greining Íslandsbanka. Þátttaka í síðasta gjaldeyrisútboði Seðlabankans var slök og námu heildartilboð aðeins 3,4 milljónum evra. Viðskiptin rýrðu gjaldeyrisforðann um um það bil 66 milljónir evra, jafnvirði 10,8 milljarða króna.

Greining segir að ýmsar ástæður kunni að vera fyrir litlum áhuga lífeyrissjóða og annarra fjárfesta á útboðinu í síðustu viku. Aðstæður á erlendum mörkuðum voru erfiðar, og svo kunni að vera að fjárfestar hafi verið ófúsir til að selja erlendar eignir í kjölfar verðlækkunar á þeim. Í útboðinu býðst Seðlabankinn til að kaupa evrur og greiða fyrir í löngum ríkistryggðum skuldabréfum.

„Þá er hugsanlegt að færri hafi verið um hituna vegna sumarfría og ekki hafi þótt liggja á að taka þátt í þessu útboði þar sem Seðlabankinn var þegar búinn að boða þriðja útboðaparið í haust,“ segir greining.

Þá er möguleiki að lífeyrissjóðir séu tregir til að selja erlendar eignir sínar fyrir krónueignir. „Ekki verður þó loku fyrir það skotið að áhugi lífeyrissjóðanna á frekari skiptum erlendra eigna yfir í bundin langtímabréf í krónum sé hreinlega takmarkaður. Við höfum áður bent á að ríkistryggð skuldabréf í krónum eru orðin býsna stór hluti eignasafns margra sjóða. Einnig er staða margra sjóðanna í erlendum verðbréfum lág í samanburði við fjárfestingarstefnu þeirra. Þótt eðlilegt sé að ríkistryggð bréf í heimamynt séu veigamikill hluti eigna langtímafjárfesta á borð við lífeyrissjóðina eru því vitaskuld einhver takmörk sett hversu yfirgnæfandi slík eign á að vera í hlutfalli við aðrar eignir. Sé sú raunin að sjóðirnir séu tregir til frekari viðskipta af þessu tagi veit það ekki á gott fyrir framgang áætlunar um afléttingu gjaldeyrishafta næsta kastið, en framangreind útboð eru eini þáttur þeirrar áætlunar sem komið hefur til framkvæmda frá því hún var kynnt fyrir fimm mánuðum síðan.“