Þvert á væntingar og spár frá því í haust hefur verðbólga farið vaxandi síðustu mánuði. Þótt nýjasta mæling sem hífði 12 mánaða verðbólgu upp í 4,6% – það mesta í átta ár – hafi komið mörgum í opna skjöldu, er ekki útlit fyrir að í óefni stefni enn að mati greiningar- og markaðsaðila.

Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur hækkað nokkuð skarpt nýverið samhliða þrálátri verðbólgu, en því hefur verið spáð um nokkra hríð að verðbólga muni taka að hjaðna þegar líður á árið.

Helstu áhrif heimsfaraldursins til hækkunar verðbólgunnar hafa verið að fjara út, og Seðlabankinn spáði því í febrúarbyrjun að verðbólga yrði komin í 2,5% markmið hans fyrir árslok.

Ekki mælst hækkun væntinga enn
Í ársfjórðungslegri könnun Seðlabankans meðal markaðsaðila sem gefin var út í lok janúar var meðaltal væntinga til verðbólgu næstu 12 mánaða 2,7% og miðgildi 2,5%, og lengri tíma væntingar voru svo til samhljóða. Í könnun Gallup í febrúar og mars væntu heimili þónokkuð hærri verðbólgu en það, en fyrirtæki ögn lægri.

Ekki liggja fyrir nýrri mælingar á verðbólguvæntingum en frá í febrúar og mars síðastliðnum, en ætla má að þær hafi hækkað nokkuð síðan þá í ljósi nýlegustu verðbólgumælinga.

Mikið traust til Seðlabankans
Samkvæmt viðmælendum Viðskiptablaðsins er lykilatriði til að tryggja að væntingar fari ekki á flug að Seðlabankinn sé tilbúinn að stíga inn í þróunina, haldi hún áfram. Í þeim efnum komi ýmislegt til greina, annars vegar hækkun stýrivaxta en hins vegar ýmsar sértækar aðgerðir – svokölluð þjóðhagsvarúðartæki – til að stemma stigu við frekari hækkunum fasteignaverðs, meðal annars hámark á veðhlutfall fasteignalána og önnur úrræði til að þrengja að lánveitingum bankanna til fasteignakaupa.

Seðlabankinn hafi hins vegar náð að byggja upp mikið traust á síðustu árum, og staða bæði bankans og þjóðarbúsins sé mun betur til þess fallin í dag að stuðla að trúverðugleika peningastefnunnar en oft áður. Þótt síðustu mælingar hafi verið á skjön við vonir og væntingar flestra, séu þær ekki tilefni til að hlaupa upp til handa og fóta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .