Ekki er tilefni til að áætla að Lánasýslan muni víkja frá útgáfuáætlun ársins í kjölfar þess að greiðsluafkoma ríkissjóðs var kynnt í morgun. Afkoman er á áætlun og því einfaldlega ekki þörf fyrir frekari fjármögnun. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar segir jafnframt að tekjur ríkissjóðs á fyrstu sjö mánuðum ársins hafi verið 7,5% lægri en í fyrra sem skýrist af því að einskiptishagnaður vegna Avens-viðskiptanna var bókfærður í fyrravor. Tekjur hafi þó verið yfir áætlun vegna aukinna skatttekna í kjölfar kjarahækkana í vor.

Þá er bent á að gjöld hafi dregist saman á milli ára og séu jafnframt innan heimilda en athyglisvert sé að það stafi af drætti á opinberum framkvæmdum. „Í ljósi þess hvaða útgjaldaflokkar eru helst að fara fram úr áætlun það sem af er ári er hins vegar ekki útséð um hvort ríkisstjórnin nái að standa á bremsunni í fjáraukalögum fyrir þetta ár eða fjárlagafrumvarpi fyrir það næsta, sem lagt verður fram um næstu mánaðamót,“ segir í Morgunkorni.