Konráð Alfreðsson varaformaður Sjómannasambands Íslands segir það vera góða fjárfestingu fyrir útgerðina að hafa sjómenn ánægða og koma til móts við þá í kjarasamningunum.

Segir hann í viðtali við Fiskiblaðið óánægjuna ekki stafa af þróun gengismála eins og útgerðarmenn segi.

Á fundi deiluaðila þann 20. desember voru lagðar fram viðbótarkröfur sjómanna sem meðal annars snerust um olíuverðstengingu, nýsmíðaálagið, sjómannaafsláttinn, fæðispeninga og fatapeninga að sögn Konráðs.

Konráð leiðir samninganefnd Sjómannasambandsins í veikindaforföllum Valmundar Valmundssonar formanns sambandsins.

„Óánægja sjómanna stafar ekki af þróun gengismála eins og útgerðin lætur í veðri vaka,“ segir Konráð í Fiskiblaðinu .

„Heldur af því að á meðan útgerðin bjó við góðæri dældi hún milljörðum af hagnaði fyrirtækjanna út til sín en á sama tíma var ekki hægt að gera kjarasamninga við sjómenn.“