Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Virðingar segir mismunandi hugmyndir um skiptihlutfall milli félaganna vera meginástæðuna fyrir því að ekki gekk upp að sameina félagið við Kviku banka þvert á það sem stefnt hafði verið að.

Neitar hún því jafnframt að ástæðan séu málaferli sem hafa verið höfðuð gegn Virðingu.

„Yfirvofandi dómsmál hafa ekki áhrif á þessa niðurstöðu. Ekki náðist saman um hlutfall og heildarmyndina, sem er nú bara það sem stundum gerist í sameiningarviðræðum,“ segir Kristín sem segir sýnina á niðurstöðu áreiðanleikakannananna ekki hafa verið þá sömu.

„Þá lá heildarmyndin fyrir en sýnin var ekki alveg sú sama á hana, menn voru ekki sammála um verðið.“

Önnur tækifæri til sameininga á markaðnum

Kristín vill ekki fara nánar út í það hvernig skiptingin hefði verið, en Viðskiptablaðið hefur áður greint frá því að stefnt hafi verið að því fyrirfram að hluthafar Kviku myndu eiga 70% í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30%.

„Við erum áfram keik og höldum áfram eins og ekkert hafi í skorist, eins og við höfum gert hingað til,“ segir Kristín sem útilokar ekki að aðrir sameiningarmöguleikar verði skoðaðir.

„Því er ekki að leyna að það eru tækifæri á þessum markaði til sameininga og viljum við horfa jákvætt á alla möguleika í þeim efnum.“

Spurð hvort Virðing hafi skoðað einhverja aðra möguleika nú þegar svarar hún: „Nei, ekkert sem hægt er að greina frá, en það er töluverð gerjun á markaðnum og ætlum við að fylgjast áfram með og grípa tækifærin ef þau koma.“