Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) sér ekki merki um verðbólu á fasteignamarkaði og virðist Íbúðarhúsnæði hvorki vera yfir- né undirverðlagt. Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að Ísland sé eitt fárra OECD-ríkja þar sem verð er nálægt jafnvægi og bendir á að til samanburðar telji OECD að talsverð bóla sé á íbúðamarkaðinum í Belgíu, Noregi, Kanada, Nýja Sjálandi og Frakklandi. Á sama tíma er íbúðarhúsnæði undirverðlagt í Japan, Þýskalandi, Írlandi og Portúgal.

Greining Íslandsbanka bendir á að OECD noti tvo mælikvarða á það hvort húsnæði sé undir- eða yfirverðlagt. Annars vegar noti stofnunin verð íbúðarhúsnæðis á móti leiguverði, sem er mælikvarði á arðsemi þess að eiga sitt eigið húsnæði, og hins vegar verð íbúðarhúsnæðis á móti tekjum sem mælir hversu vel heimilin í viðkomandi landi hafa efni á að búa í sínu eigin húsnæði.

Ísland í kringum miðju

Í könnun OECD, að sögn greiningar Íslandsbanka, kemur fram að íbúðaverð á móti leiguverði er hvað hæst í Noregi, Kanada, Belgíu og Nýja Sjálandi. M.ö.o er tiltölulega ódýrt að leigja sér húsnæði þar í samanburði við það að eiga húsnæði. Aftur á móti er mjög dýrt að leigja sér húsnæði í samanburði við að eiga það í Japan, Þýskalandi, Írlandi, Portúgal og Slóveníu. Ísland er þarna nokkuð fyrir neðan miðjan hóp þeirra 27 landa sem könnun OECD tekur til.

Í hinum flokknum, þ.e. sem snýr að verði íbúðarhúsnæðis á móti tekjum þá tróna Belgía, Noregur, Kanada og Nýja Sjáland aftur á toppnum.