Ólíklegt er að yfirtökutilboð, sem fjárfestahópur í nafni Strengs ehf., hafa gert í hlutabréf Skeljungs leiði til afskráningar félagsins af markaði.

Fjárfestahópurinn freistar þess að tryggja sér níutíu prósent hlutafjár og innlausnarrétt þar með, en ólíklegt þykir að hópurinn nái því markmiði sínu þó líklegt sé að hópurinn komi til með að ná meirihluta í stjórn félagsins á næstu misserum.

Fyrirætlanir Strengs um að ná yfirráðum í Skeljungi falla enda ekki í kram stórra hluthafa í félaginu, sem ekki hyggjast ganga að yfirtökutilboðinu að því er ViðskiptaMogginn hefur eftir heimildamönnum sínum.

Haft er eftir hluthöfum að fjárhæð tilboðsins, um 8,3 krónur á hlut, þyki of lág en tilboðið er undir skráðu markaðsgengi Skeljungs. Þá hefur Jakobsson Capital metið gengi bréfa Skeljungs á 10,4 krónur á hlut í nýlegu verðmati.

Strengshópurinn er sagður koma til með að ráðast í umfangsmiklar breytingar á uppbyggingu félagsins í kjölfar afskráningar félagsins, ef af henni verður. Á meðal fjárfesta í hópnum eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir og Sigurður Bollason.