Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar segir  stofnunina ekki hafa sett l eiðbeiningar um hvernig standa skuli að hópuppsögnum á vefsíðu sína vegna yfirvofandi skriðu hópuppsagna.

„Það er oft í ólagi hvernig staðið er að hópuppsögnum og því teljum við þörf á því að upplýsa fyrirtæki um hvernig það skuli gert. Það er sem betur fer ekki oft gripið til hópuppsagna og því ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki standi ekki alveg klár á hvernig þær skuli framkvæmdar," sagði Gissur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það eru auðvitað ýmsar blikur á lofti í atvinnumálum núna, en birting leiðbeiningar okkar í gær er ekki til komin vegna þess að við búumst við einhverri skriðu hópuppsagna," sagði Gissur.

„Það hafa verið 1-2 fyrirtæki að grípa til þessa úrræðis um hver mánaðamót og það er misjafnt hvernig að því er staðið. Við teljum það vera okkar hlutverk að hafa umsjón með hópuppsögnum og ákváðum því að birta þessar leiðbeiningar."