Landsbankinn hefur uppfært viðskiptaskilmála Einkabanka, sem er netaðgangur viðskiptamanna bankans að reikningum sínum, millfærslum og annarri þjónustu. Það vakti athygli margra að í 9. grein viðskiptaskilmálans, Þóknun og skuldfærsla, segir: "Notandi greiðir fyrir notkun Einkabankans samkvæmt gjaldskrá Landsbankans eins og hún er hverju sinni með gjaldfærslu af viðskiptareikningi, sbr. 15. gr. skilmála þessara. Landsbankinn áskilur sér fullan rétt til að breyta gjaldskrá sinni án fyrirvara."

Þetta vekur enn meiri athygli en ella því á forsíðu Einkabankans stendur skýrum stöfum: "Í Einkabankanum getur þú stundað öll almenn bankaviðskipti á netinu, hratt og örugglega. Einkabankinn sparar þér umtalsverðan tíma, fé og fyrirhöfn þar sem hann er alltaf opinn, ókeypis og notendur greiða engin færslugjöld..."

Á þessu eru þó rökréttar skýringar. María Dungal, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landsbankans, segir ekkert árgjald sé eða verði að Einkabankanum. Hins vegar sé verið að benda á að það kosti sex krónur að senda sms-skeyti til móttakanda greiðslna og sömuleiðis sé greitt fyrir kvittun sem send er með pósti. Notendur hafi ávallt þurft að greiða fyrir þessa þjónustu en María segir að eingöngu sé verið að koma þessu inn í skilmálana með formlegum hætti.

"Það hafa verið brögð að því að notendur hafa misskilið þetta á þann hátt að taka eigi upp greiðslu fyrir notkun af Einkabankanum. Það var ekki fyrr en nýju skilmálarnir voru komnir í loftið að við sáum að það mætti misskilja þetta með þeim hætti að það ætti að fara taka upp árgjald. Það stendur ekki til enda værum við með því að skjóta okkur í fótinn," segir María.