Ekki hefur verið tekin ákvörðun í Yfirtökunefnd hvort nefndin þurfi að rannsaka hugsanlegt samstarf eða tengsl Landsbankans við Baug og Oddaflug og hvort þau séu þess eðlis að yfirtökuskylda hafi myndast í félaginu. Þetta segir Viðar Már Matthíasson, formaður nefndarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

"Við höfum ekki skoðað þetta og teljum rétt að leyfa rykinu aðeins að setjast áður en við tökum ákvörðun um það. Hins vegar munum við reyna að afla gagna, sem kunna að skipta máli."

Landsbankinn keypti 10% hlut Baugs og Oddaflugs í FL Group í fyrradag í kjölfar þess að Yfirtökunefndin úrskurðaði um að tengslin milli Baugs og Oddaflugs væru með þeim hætti að yfirtökuskylda hefði stofnast. Félögin tvö áttu tæplega 50% hlut en eiga núna tæplega 40% hlut.

"Landsbankinn, sem hluthafi í FL Group, er ekkert öðruvísi settur en aðrir hluthafar og hann gæti alveg komið til skoðunar sem hugsanlegur aðili í svona samstarfi eins og hver annar hluthafi. Yfirtökureglurnar gilda alveg jafn mikið um banka eins og aðra hluthafa."

Ef farið yrði í þessa rannsókn yrði það þriðja rannsókn á hugsanlegri yfirtökuskyldu stærstu eigenda í FL Group á innan við hálfu ári. Fyrsta verkefni Yfirtökunefndarinnar nú í sumar var að skoða tengsl á milli stærstu eigenda FL Group í kjölfar breytinga á eignarhaldi félagsins. Niðurstaðan var þá sú að yfirtökuskylda væri ekki til staðar.

Eftir hlutafjárútboð FL Group fyrir skemmstu urðu töluverðar breytingar á eignarhaldi félagsins og tók nefndin til við að skoða hvort um yfirtökuskyldu væri að ræða. Nefndin skilaði áliti sínu í fyrradag og var niðurstaðan að stærstu eigendur félagsins Baugur og Oddaflug væru yfirtökuskyldir. Þeir seldu hluti sína strax við opnun markaðarins í fyrradag og sagði nefndin að yfirtökuskyldunni væri þar með aflétt.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.