„Það er ekki verið að blekkja einn eða neinn,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Fram kom í kvöldfréttum RÚV að skuldir sameinaðs sveitarfélags Garðabæjar og Álftaness séu talsvert meiri en gert var ráð fyrir í greinargerð sem unnin var af ráðgjafafyrirtækinu R-3 og birt íbúum áður en kosið var um sameininguna.

Morgunblaðið fjallaði jafnframt um málið í dag. Skuldir Garðabæjar eru áætlaðar rúmir 5 milljarðar króna árið 2017 og áætlunin hljóðaði upp á 9 milljónir króna.

Gunnar segir í samtali við RÚV ástæðuna fyrir mismuninum þá að eldri áætlun hafi verið framreiknuð en ekki gert ráð fyrir fjárfestingum. Garðabær hafi fjárfest fyrir um 3 milljarða á síðastliðnum tveimur árum. Það hafi ekki legið fyrir þegar greinargerðin var unnin auk þess sem verðbólga var ekki í útreikningunum.