Guðjón Ármann Guðjónsson, forstöðumaður hjá Stefni, viðurkennir að Norðmenn upplifi nú aðstæður sem þeir eru óvanir. Hann bendir hins vegar á að norski olíusjóðurinn hafi meðal annars verið settur af stað til að stuðla að sveiflujöfnun þegar harðnaði í ári og þannig sé hægt að stýra hjá of miklu efnahagsáfalli þrátt fyrir lægra olíuverð.

„Þeir eru nú ekki að taka nema mjög lítið brot úr þessum sjóði þannig það er ekki eins og þeir séu að tæma hann. Það má heldur ekki gleyma því að frá því að olíuverð var sem lægst í ársbyrjun hefur það hækkað um 100 prósent og tunnan er nú í 50 dölum,“ segir Guðjón.

Hann bendir jafnframt á að Norðmenn hafi þegar reynt að beita tólum peningastefnunnar með því að lækka vexti niður í 0,5 prósent en að þeir vilji ekki fara alla leið niður í núllið líkt og t.d. Evrusvæðið og Svíþjóð. Guðjóni finnst ólíklegt að einhvers konar þensluástand myndist í Noregi í tengslum við innspýtingu fjármagns úr olíusjóðnum, þvert á móti sé einungis verið að reyna að dempa höggið.​

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .