Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir of snemmt að segja til um hvort ÍL-sjóðs málið stefni í dómsmál við kröfuhafa, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðir. Í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark, sem var tekinn upp í byrjun vikunnar, segir Bjarni að viðræður við kröfuhafa séu á algjöru frumstigi.

„Það eru smá þreifingar í gangi og athugun á því hvort við getum sett samtal í gang. Sjáum bara hvað kemur út úr því,“ segir Bjarni.

„Ég hef alveg trú að við getum leyst svona flókna stöðu. Ég hef trú á því. Mér þætti það mikil synd ef þingið hefði ekki vilja til að láta reyna á það hver réttarstaðan er á milli kröfuhafa á ÍL-sjóð og hins vegar fyrir hverju ríkið stendur í ábyrgð fyrir.“

Uppgjör þurfi að miða við einfalda ábyrgð

Bjarni kynnti í október skýrslu um ÍL-sjóð, gamla Íbúðalánasjóð, og þá þrjá valkosti sem hann telur að ríkið standi frammi fyrir, þar á meðal að knúin verði fram slit sjóðsins með lagasetningu.

„Eins og ég hef horft á þetta allan tímann, þá væri það langfarsælast fyrir alla aðila að reyna að leiða fram einhverja niðurstöðu þar sem að þeir sem eiga kröfu á sjóðinn myndu taka eignir hans yfir og ávaxta þær til framtíðar. En það þarf auðvitað að gerast á þeirri forsendu að hér sé ríkið bara í einfaldri ábyrgð og svo framvegis,“ segir Bjarni.

„Ég er með í höndunum greiningu á lagalegri stöðu málsins sem byggir á þessum útgáfum sem rekja sig aftur til 2004 og útboðslýsingum. Þar er gengið út frá því að ríkið standi í einfaldri ábyrgð sem þýðir í raun og veru það að ef sjóðurinn getur ekki staðið í skilum þá gerir ríkir upp að fullu kröfurnar eins og þær standa á þeim tíma en gerir ekki upp framtíðarvaxtagreiðslur sem eiga eftir að falla til í framtíðinni. Um það, í raun og veru, snýst þessi deila.“

Óttast ekki áhrif á arfleifð sína

Lífeyrissjóðirnir hafa lýst því opinberlega yfir að þeir telji lagalega stöðu sína afar sterka og líta svo á að ríkissjóðir beri beina eigendaábyrgð á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs. Þá sé þeim ekki heimilt að gefa eftir innheimtanlegar kröfur.

Þáttastjórnendur spurðu Bjarna hvaða áhrif það hefði á hans arfleifð sem fjármálaráðherra ef ÍL-sjóðs málið myndi tapast fyrir dómstólum.

„Myndi það hafa áhrif á mína arfleifð ef ég hefði reynt að lágmarka tjón ríkissjóðs af þessum gömlu skuldbindingum? Ég held ekki en það getur vel verið að aðrir séu annarrar skoðunar. Ég hef bara þá skyldu samkvæmt lögunum sem gilda um ÍL-sjóð að lágmarka áhættu ríkissjóðs af ÍL-sjóði.“

Í skýrslu fjármálaráðherra um ÍL-sjóð er áætlað að með hverjum mánuði sem líður aukist kostnaður ríkissjóðs við uppgjör um 1,5 milljarða, eða 18 milljarða króna á ári.

„Þetta eru bara slíkar fjárhæðir að mér finnst ekki verjandi sem fjármálaráðherra, með þær lagaskyldur sem ég hef, að horfa bara á þetta vandamál og bíða eftir að einhver annar horfist í augu við það.“

Bjarni ræddi um ÍL-sjóð frá 37:28-42:38.