Svartsýni á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar sést glöggt í mælingum á Væntingavísitölu Gallup, en hún hefur einungis tvisvar verið lægri á þessu ári, að því er kemur fram í samantekt Íslandsbanka .

Það sem af er árinu hefur vísitalan verið að jafnaði tæplega 30 stigum lægri en meðaltal síðasta áratugar, eða 62 stig nú, en í október lækkaði hún um rúm 13 stig frá síðasta mánuði, í 47,2 stig. Þannig minnir árið nú helst á óvissuástandið árið 2011 í kjölfar hrunsins og efnahagsstefnu þjóðarinnar þá.

Eins og áður segir hefur vísitalan þó mælst tvisvar lægri í ár, eða 44,4 stig í apríl og enn lægri í ágúst eða 43,8 stig, en þar áður hafði hún ekki mælst viðlíka lág í 10 ár. Hefur vísitalan eins og gefur að skilja verið óvenjulega lág frá því í febrúar þegar kórónuveirufaraldurinn fór að breiðast út um landið.

Lækkun um 90% frá byrjun árs

Til viðbótar hefur ein af fimm undirvísitölum hennar, sem mælir núverandi ástand, ekki verið jafnlágt síðan í apríl 2011, þegar hún var 9,7 stig, en nú mælist hún 11 stig. Það er lækkun um 90% frá ársbyrjun þegar sú undirvísitala stóð í 106,5 stigum.

Önnur undivísitala, sem metur væntingar á efnahagsaðstæðum í þjóðfélaginu eftir hálft ár, lækkaði um 16 stig frá síðasta mánuði, og er hún nú komin í 71,3 stig sem er reyndar í takt við síðustu ár. Þar er þó verið að bera saman við núverandi ástand svo sú undirvísitala sveiflast alla jafna minna en mat á núverandi aðstæðum.

Allar undirvísitölurnar fimm lækkuðu milli mánaða nú, en hinar þrjár eru mat á núverandi aðstæðum í atvinnumálum, væntingum til ástands atvinnumála eftir 6 mánuði og væntingum um heildartekjur heimilisins eftir 6 mánuði.

Þróun væntingarvísitölunnar í ár er í beinu samhengi við fjölgun kórónuveirusmita, og telur greining Íslandsbanka að þróun hennar næstu vikur muni því velta á þróun í fjölda þeirra, en hingað til hafi væntingavísitalan svo haft töluvert forspárgildi á einkaneyslu.