Ólafur Grétar Kristjánsson, formaður FHSS, Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, segir að starfsfólkið sé að sjálfsögðu ekki ánægt með þær launalækkanir sem boðaðar voru fyrir helgi.

Það hafi þó skilning á því að grípa verði til slíkra ráðstafana til að taka á ríkisfjármálunum. Það jákvæða sé að ekki verði gripið til uppsagna. „Við höfum fengið það staðfest," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum samþykkti ríkisstjórnin á föstudag að lækka laun starfsmanna stjórnarráðsins, umfram 400 þúsund krónur á mánuði, um 3 til 10%. Þá var samþykkt að segja öllum aksturssamningum upp.

Ólafur Grétar segir að starfsfólkið hafi verið viðbúið þessu. Ekki síst eftir að kjararáð úrskurðaði um lækkun launa skrifstofustjóra í stjórnarráðinu.

Hann segir að launaxtarnir sjálfir verði ekki lækkaðir heldur muni launalækkanirnar fyrst og fremst koma fram í niðurskurði á yfirvinnu.

Um 350 manns eru í FHSS en þeir starfsmenn sem ekki eru háskólamenntaðir eru í FSS, Félagi starfsmanna stjórnarráðsins.