Ekki hefur verið vilji til að breyta formi dóma Hæstaréttar á þann veg að sérstaklega sé tilgreint hvaða dómari semur atkvæði meirihlutans. Þetta kemur fram í skriflegu svari forseta Hæstaréttar við fyrirspurn blaðsins.

Nýverið komst MDE að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið gegn MSE vegna setu Viðars Más Matthíassonar í dómi í sakamáli gegn stjórnendum Landsbankans. Réttmætur vafi væri um hæfi hans í málinu í ljósi eignar hans á bréfum í bankanum árin fyrir hrun. Kom fram í dóminum að ekki mætti ráða af dómi Hæstaréttar hver þáttur Viðars Más hefði verið í samningu hans. Íslenska ríkið var einnig dæmt brotlegt með svipuðum rökum í öðru máli árið 2003.

Víða erlendis tíðkast það að dómarar skili hver fyrir sig sínu atkvæði en sá háttur hafi ekki verið hafður á hér. Í svari forseta réttarins segir að þetta hafi verið rætt við fjölgun dómstiga árið 2018 en ekki verið vilji til að breytinga.