Það er alls ekki víst að Baugur geri kauptilboð í bresku tískuvöruverslunina Moss Bros, sagði Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga félagsins í Bretlandi, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Hann sagði umfjöllun í breskum fjölmiðlum vera vangaveltur á þessu stigi, en gengi hlutabréfa félagsins hafði hækkað um tæp 16% á miðvikudaginn vegna frétta um að Baugur væri að undirbúa kauptilboð í fyrirtækið.

Unity-fjárfestingasjóðurinn, sem er í eigu Baugs, FL Group og Kevin Stanford, heldur utan um 28,7% í Moss Bros, en auk þess á Stanford, sem meðal annars stofnaði Karen Millen-verslunarkeðjuna, sjálfur um 6,5%.

Talið er að Standord hafi mikinn áhuga á því að kaupa og afskrá Moss Bros. Gunnar sagði hins vegar að málið væri flókið og að ekki væri ráðlegt að reyna yfirtöku á samþykkis Moss-fjölskyldunnar, sem stofnaði fyrirtækið.

Í nýlegri frétt breska fagtímaritsins Retail Week segir að Moss-fjölskyldan sé að undirbúa kauptilboð í Moss Bros til að koma í veg fyrir hugsanlega yfirtöku Baugs. Sérfræðingar benda á að fyrirtækið falli vel að rekstri Mosaic Fashions, sem er að hluta til í eigu Baugs og er skráð í Kauphöll Íslands.

Moss Bros er skráð í kauphöllina í London. David Moss, einn af stofnendum fyrirtækisins sem var ýtt út úr stjórn fyrirtækisins árið 2001, mun leiða kauptilboð fjölskyldunnar, segir í Retail Week. Tímaritið segir Baug og samstarfsaðila bíða eftir fregnum af jólaverslun Moss Bros.

Sérfræðingur hjá breska verðbréfafyrirtækinu Seymour Pierce telur að hugsanlegt kaupverð á Moss Bros sé í kringum 85-90 pens á hlut, en hæst fór gengið í rúmlega 76 pens á miðvikudaginn. Gengi bréfanna lækkað um tæp 2% í gær og var 75 pens á hlut rétt fyrir lokun markaðar í London í gær.

Miðað við það gengi er markaðsvirði félagsins rúmlega 70 milljónir punda en Retail Week hefur eftir heimildarmönnum sínum að kauptilboð Moss-fjölskyldunnar verði 112 milljónir punda, sem samsvarar rúmlega 15 milljörðum króna.