Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavikur, segist ekki vita hvort hann myndi sitja sem borgarfulltrúi í minnihluta út næsta kjörtímabil ef hann yrði í þeirri stöðu eftir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta kom fram í viðtali við Dag í Morgunútvarpi RÚV í morgun. Dagur hefur gegnt embætti formanns borgarráðs á þessu kjörtímabili.

Hann segir þetta ekki vera spurningu um hvort hann myndi nenna að sitja í minnihluta. Hann nenni því. „Þetta er spurning um að ef ég fæ einhver mjög neikvæð skilaboð í kosningunum þá hlýt ég að fara yfir það,“ sagði Dagur. Ef umboðið yrði sterkt þá myndi hann hins vegar fara eftir því. Dagur tók fram að hann hefði setið í minnihluta áður.

Eins og staðan er núna eru þó litlar líkur á að Dagur lendi í minnihluta. Flokkur hans mælist með fjóra borgarfulltrúa, einum meira en í síðustu kosningum, og sjálfur segir Dagur að mikil málefnaleg samstaða sé með Bjartri framtíð. Dagur er sá einstaklingur sem flestir treysta í embætti borgarstjóra eftir því sem niðurstöður skoðanakannana sýna.  Dagur segist þó ekki gera kröfu um borgarstjórastólinn.