Ragnar H. Hall hrl. segir að ekki sé víst að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi heimild til þess að flytja starfsemi Fiskistofu. „Til þess að geta efnt til svona hreppaflutninga þá þurfi ráðherrann að hafa sérstaka lagaheimild. Ég held að hann hafi hana ekki í þessu tilfelli,“ sagði Ragnar Hall í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Slíka heimild hafi verið að finna í eldri lögum en í nýjum lögum nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands sé slík heimild ekki fyrir hendi. Fyrir vikið leiki vafi á því hvort flutningur Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar sé lögmætur.

Undir þetta tekur Hafsteinn Þór Hauksson, lektor í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands. „Ég væri mjög áhugasamur um að heyra í fyrsta lagi hver lagaheimildin er,“ segir Hafsteinn í kvöldfréttum RÚV.

Þarf heimild frá Alþingi

Hafsteinn bendir á að árið 1998 hafi fallið dómur í Hæstarétti þar sem deilt var um lögmæti þess að Landmælingar hafi verið fluttar frá Reykjavík til Akraness án sérstakrar lagaheimildar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að flutningurinn hafi verið ólögmætur.

Hafsteinn segir að sé raunin sú að ráðherra skorti lagaheimild til að taka ákvörðun um flutning Fiskistofu þurfi hann heimild frá Alþingi til þess. Flutningurinn hefur sætt harðri gagnrýni, en útlit er fyrir að flestir sem starfa fyrir stofnunina komi til með að missa vinnuna.