Stórfelld lækkun tolla á landbúnaðarafurðum er ekki í samræmi við landbúnaðarstefnu Íslands. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við Fréttablaðið. Tollar af innfluttu kjöti námu 1,3 milljörðum króna í fyrra. Sigurður segir enga tryggingu vera fyrir því að lækkun tolla myndi skila sér að fullu til neytenda þó allir tollar séu greiddir af neytendum.

„Samið er um tolla í gagnkvæmum samningum á milli landa, eða ríkjasambanda. Það þýðir að tollalækkun er gagnkvæm. Ríki sem lækkar tolla hjá sér gagnvart öðru ríki eða ríkjasambandi nýtur þess sama í útflutningi,“ segir Sigurður.