Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir tímabært miðað við fimm ára reynslu núverandi fyrirkomulagi laga um Seðlabankann að endurmeta þau. Bjarni kynnti fyrirhugaða breytingu á lögum um Seðlabankann á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Þegar hann kom út af fundinum nú rétt fyrir hádegi vildi hann ekki svara því hvort seðlabankastjórar verði einn eða þrír eftir að lögum um Seðlabankann verði breytt. Eins og fram kom í morgun hefur verið ákveðið að auglýsa starf seðlabankastjóra laust til umsóknar.

Við munum eiga sem mest og best samráð við aðra flokka til þess að undirbúa nauðsynlegar breytingar. Hann segir að hugað verði að mörgu í þessu efni.

„Í fyrsta lagi að endurmeta reynslu á þeim breytingum sem gerðar voru á stjórn bankans. Það er tímabært að gera það í lok fimm ára skipunartíma, þegar hann er runninn út,“ segir Bjarni. Í öðru lagi séu vísbendingar um það að fyrirkomulag á mörkum starfsemi seðlabankans annars vegar og hins vegar Fjármálaeftirlitsins ættu að koma til skoðunar. „Ég myndi vilja sjá vinnuna horfa til þess einnig,“ segir Bjarni. „Allt hnígur þetta í þá átt að gera seðlabankanum enn betur kleift með öllum breytingum að rækja sín hlutverk og það verður unnið faglega að þessum breytingum og í engu hvikað frá markmiðum um sjálfstæði bankans,“ segir Bjarni.

Bjarni vísaði í vinnu starfshóps sem verður settur á laggirnar og á að leggja mat á æskilegar breytingar á lögum um Seðlabankann. Hópurinn á að hafa það að markmiði að treysta trúverðugleika og sjálfstæði Seðlabankans og traust á íslenskum efnahagsmálum. Bjarni benti þó á að til greina komi að hafa einn aðalseðlabankastjóra og tvo varaseðlabankastjóra.