Til stendur, af hálfu ríkisstjórnarinnar, að stofna nýja ráðgjafanefnd vegna afnáms gjaldeyrishafta og samninga við kröfuhafa föllnu bankanna. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, staðfesti þetta í sérstakri umræðu á Alþingi í dag. Til greina kemur að kalla til erlenda sérfræðinga til starfa í nefndinni.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, var málshefjandi í umræðunni. Hann spurði meðal annars út í hvernig stjórnsýslunni í þessu ferli yrði háttað. Hann spurði meðal annars hvort hlutverk Seðlabankans yrði það sama og það var í tíð síðustu ríkisstjórnar og hvernig þverpólitísku samstarfi yrði háttað. Síðast en ekki síst spurði Steingrímur hvort Bjarni gerði sér grein fyrir því hvaða svigrúm myndi skapast til skuldaniðurfellinga með samningunum.

„Ég sé engar meginbreytingar fyrir mér á hlutverki Seðlabankans í þessu öllu saman,“ sagði Bjarni. Hann sagðist lítið geta tjáð sig um það hvaða svigrúm hann teldi vera til staðar.

Steingrímur J. Sigfússon lýsti yfir vonbrigðum yfir því hversu lítið hefði verið unnið í mánuði síðustu fjóra mánuði til að vinna að losun fjármagnshaftanna. Hann spurði við hverja kröfuhafar bankanna ættu að tala.