Í tilefni af frásögn Atorku Group af áliti og aðkomu Ársreikningaskrár að deilum þess við Kauphöll Íslands hf, sem birtist í bréfi félagsins, hefur Ársreikingaskrá sent frá sér yfirlýsingu þar sem tekið er fram að í skoðun hennar á ársreikningum Atorku fellist engin viðurkenning á því að reikningsskilin uppfylli fyrirmæli laga og reglna. Að öðru leyti segist Ársreikningaskrá ekki vera aðili að deilunni.

Atorka Group hf hefur gert opinbert bréf sem félagið sendi Kauphöll Íslands hf, þann 25. september sl. samhliða birtingu fréttatilkynningar vegna fyrirhugaðrar málshöfðunar gegn Kauphöllinni 2. október sl.

Ársreikningaskrá telur nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:

"Eitt af hlutverkum Ársreikningaskrár er að hafa eftirlit með reikningsskilum félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í samræmi við lög nr. 3/2006 um ársreikninga.

Ársreikningaskrá er á engan hátt aðili að deilum ofangreindra aðila, enda snúast þær einvörðungu um upplýsingagjöf Atorku Group hf samkvæmt fréttatilkynningum til Kauphallar Íslands en ekki um reikningsskil félagsins sem slík, sbr. lög nr. 3/2006.

Tilefni þess að Ársreikningaskrá er nefnd í bréfi Atorku til Kauphallarinnar er bréf dags. 12. september sl. þar sem Ársreikningaskrá óskaði eftir fundi með Kauphöll Íslands. Þar vildi Ársreikningaskrá ræða birtingu uppgjöra móðurfélaga samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum samhliða birtingu samstæðureikningsskila og upplýsingagjöf tengda þessum reikningsskilum.

Sú fullyrðing Atorku Group hf að Ársreikningaskrá hafi ?sent þriggja mánaða uppgjör félagsins til skoðunar hjá sérfræðingum í Bretlandi og fengið þau svör að uppgjörið væri í alla staði til fyrirmyndar og jafnvel of ítarlegt." er röng. Hið rétta er, að við birtingu þriggja mánaða uppgjörs Atorku árið 2006 skoðaði Ársreikningaskrá hvort ástæða væri til afskipta, þar sem félagið birti bæði reikningsskil samstæðu og móðurfélags samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrst félaga í Kauphöllinni. Ársreikningaskrá nýtti sér það mikla samstarf sem er meðal eftirlitsaðila með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla innan Evrópska efnahagssvæðisins á vegum CESR (The Committee of European Securities Regulators). Því var meðal annars leitað álits sambærilegs eftirlitsaðila í Bretlandi. Það varð síðan niðurstaða Ársreikningaskrár að það væri ekki hlutverk hennar að hafa bein afskipti af þessari upplýsingagjöf félagsins.

Reikningsskil Atorku Group hf, bæði árshlutareikningar árin 2005 og 2006, auk ársreiknings 2005 hafa til þessa dags að öðru leyti ekki hlotið neina sérstaka skoðun af hálfu Ársreikningaskrár. Í því fellst engin viðurkenning á því að reikningsskilin uppfylli fyrirmæli laga og reglna," segir í yfirlýsingu Ársreikningaskrá.