„Leigusamningurinn okkar rann út 1. september en við erum með frest til 8. september. Það er aldrei að vita hvernig þetta fer,“ segir Jaroslava Ásgeirsson, sem rekur skemmtistaðinn Goldfinger í Kópavogi. Ásgeir Davíðsson, löngum þekktur sem Geiri í Goldfinger, maður Jaroslövu lést fyrir tveimur árum. Hann átti skemmtistaðinn og húsið við Smiðjuveginn sem hýsir Goldfinger. Nú er útlit fyrir að staðnum loki eftir næstu helgi.

Skuldum hlaðið dánarbú

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í nóvember árið 2012 stóð lítið eftir fyrir erfingja Geira þegar skiptum lauk á dánarbúi hans. Kröfur í dánarbúið námu um 200 milljónum króna og átti það ekki fyrir skuldum. Landsbankinn og Drómi, félag sem stofnað var utan um eignir Frjálsa fjárfestingarbankans og Spron, áttu á bilinu 180 til 190 milljónir af heildarkröfur í dánarbúið.

Geiri átti eignir víða og er búið að selja þær flestar. Til viðbótar átti Geiri ásamt fjölskyldu sinni félagið Ásgeir Þór og synir ehf , sem var úrskurðað gjaldþrota í desember sama ár og Geiri lést. Landsbankinn eignaðist húsið og hefur síðan leigt Jaroslövu það undir rekstur Goldfinger. Húsið hefur verið til sölu síðan í byrjun árs. Húsið kostar 61 milljón króna. Brunabótamat húsins er tvöfalt hærra eða upp á tæpar 127 milljónir króna.

Fram hefur komið í fjölmiðlum í dag að svo kunni að fara að Goldfinger verði lokað.

Jaroslava segir í samtali við VB.is það geta gerst framlengi Landsbankinn ekki leigsamning við hana. Það fari líka eftir því hver kaupi húsið.

„Við þurfum að kaupa húsið og ég er búin að gera tilboð í það. En við skulum sjá til, kannski kemur einhver og gefur mér góða jólagjöf,“ segir hún.