Laurene Powell Jobs, ekkja Steve Jobs, stofnanda Apple, stofnaði Emerson Collective árið 2004, en það er meðal stærstu hluthafa í vestfirska líftæknifyrirtækinu Kerecis. Fjárfestingin er sögð hafa komist á vegna tengsl Ólafs Ragnars Grímssonar við Jobs. Ólafur Ragnar settist í stjórn Kerecis á síðasta ári fyrir áeggjan Jobs. Var það í fyrsta sinn sem Ólafur Ragnar tók sæti í stjórn einkafyrirtækis.

Jobs er meðal 30 umsvifamestu erlendu auðmannanna hér á landi, sem fjallað er um nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Jobs stofnaði Emerson Collective til að beita sér í ýmsum velgjörðarmálum í Bandaríkjunum, til að mynda umhverfismálum og menntamálum.

Hún er þrítugasta ríkasta manneskja heims og er auður hennar metinn á 20 milljarða dollara, jafnvirði um 2.700 milljarða króna samkvæmt auðmannalista Forbes.

Auk stæðilegs eignarhlutar í Apple og Walt Disney er hún stór hluthafi í íþróttaliðunum Washington Wizards og Washington Capitals ásamt því að eiga nokkra fjölmiðla í Bandaríkjunum, til að mynda The Atlantic.

Kerecis vinnur að þróun vara úr þorskroði í lækningaskyni, meðal annars til að græða sár. Félagið hefur meðal annars fengið styrk frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu til að þróa vörur sínar frekar. Það stefnir á öran vöxt í Bandaríkjunum næstu misserin og sótti það sér 3,3 milljarða króna lánsfé til að standa undir vextinum.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .