*

laugardagur, 16. janúar 2021
Frjáls verslun 25. desember 2020 13:04

Ekkja Steve Jobs fjárfesti í þorskroði

Laurene Powell Jobs, sem stendur að fjárfestingu í hinu vestfirska Kerecis, er 30. auðugasta manneskja heims.

Ritstjórn
Laurene Powell Jobs.
epa

Laurene Powell Jobs, ekkja Steve Jobs, stofnanda Apple, stofnaði Emerson Collective árið 2004, en það er meðal stærstu hluthafa í vestfirska líftæknifyrirtækinu Kerecis. Fjárfestingin er sögð hafa komist á vegna tengsl Ólafs Ragnars Grímssonar við Jobs. Ólafur Ragnar settist í stjórn Kerecis á síðasta ári fyrir áeggjan Jobs. Var það í fyrsta sinn sem Ólafur Ragnar tók sæti í stjórn einkafyrirtækis.

Jobs er meðal 30 umsvifamestu erlendu auðmannanna hér á landi, sem fjallað er um nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Jobs stofnaði Emerson Collective til að beita sér í ýmsum velgjörðarmálum í Bandaríkjunum, til að mynda umhverfismálum og menntamálum.

Hún er þrítugasta ríkasta manneskja heims og er auður hennar metinn á 20 milljarða dollara, jafnvirði um 2.700 milljarða króna samkvæmt auðmannalista Forbes.

Auk stæðilegs eignarhlutar í Apple og Walt Disney er hún stór hluthafi í íþróttaliðunum Washington Wizards og Washington Capitals ásamt því að eiga nokkra fjölmiðla í Bandaríkjunum, til að mynda The Atlantic.

Kerecis vinnur að þróun vara úr þorskroði í lækningaskyni, meðal annars til að græða sár. Félagið hefur meðal annars fengið styrk frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu til að þróa vörur sínar frekar. Það stefnir á öran vöxt í Bandaríkjunum næstu misserin og sótti það sér 3,3 milljarða króna lánsfé til að standa undir vextinum.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér.

Stikkorð: auðmenn Erlendir