Danska blaðið Ekstra blaðið hefur beðið Kaupþing banka afsökunar vegna greinaskrifa um starfsemi bankans sem birtust haustið 2006. Ekstra blaðið mun einnig greiða umtalsverðar skaðabætur og bæta Kaupþingi  hæfilegan lögfræðikostnað að því er kemur fram í frétt frá Kaupþing.

Greinarnar, sem voru settar inn á vefsíðu blaðsins birtust á dönsku og einnig, þótt óvenjulegt sé, á ensku og taldi Kaupþing að í þeim væri að finna alvarlegar ásakanir í garð bankans og stjórnarformanns hans, Sigurðar Einarssonar. Kaupþing taldi ásakanirnar vera með öllu ósannar og til mikils skaða, bæði fyrir bankann og stjórnarformanninn. Þar sem blaðið féllst ekki á að draga þessar staðhæfingar til baka og biðjast afsökunar, ákvað Kaupþing að stefna útgefanda og ritstjórum Ekstra blaðsins í Lundúnum, sem er fjármálamiðstöð Evrópu og heimaborg Sigurðar Einarssonar.

Í kjölfar sáttar, sem Ekstra blaðið leitaðist eftir, hefur blaðið í dag beðið bankann afsökunar fyrir dómstólnum og samþykkt að birta afsökun á heimasíðu sinni www.ekstrabladet.dk og verður hún látin standa þar í einn mánuð. Með þessu fellst blaðið með afdráttarlausum hætti á það að Kaupþing hafi í einu og öllu farið eftir lögum og góðum viðskiptaháttum í sinni starfsemi segir í tilkynningu Kaupþings.

Afsökunina og sáttina má sjá á vefsíðunni www.schillings.co.uk