*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 25. júní 2018 14:02

Ekvador gerir fríverslunarsamning við EFTA

Ráðherra utanríkisviðskipta Ekvador segir samninginn skapa viðskiptasambönd til framtíðar.

Ritstjórn
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra skrifaði undir samninginn fyrir hönd Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Ekvador skrifaði í dag undir fríverslunarsamning við Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA). Samningnum er ætlað að létta hindrunum og auðvelda viðskipti og fjárfestingar á milli Ekvador og aðildarríkja EFTA, sem eru Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein.

Skrifað var undir samninginn á Hólum í Hjaltadal í morgun. Ráðherrafundur EFTA hófst á Sauðárkróki í gær, sunnudag, og mun honum ljúka á morgun. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Íslands.

Helstu útflutningsvörur Ekvador eru ávextir og grænmeti, þá helst bananar, en auk þess gull, kakóvörur, rósir, fiskiolíur, rækjur og önnur sjávarföng. Útflutningsverðmæti til ríkja EFTA nam á síðasta ári um 110 milljónum Bandaríkjadala. Innflutningur Ekvador frá EFTA-ríkjunum nam á sama tíma um 120 milljónum dala, en meðal helstu innflutningsvaranna eru lyf, áburður, úr, lækningatæki og ýmis konar efni.

Í samningnum milli Ekvador og EFTA eru kveðið á um markaðsaðgengi fyrir vörur og þjónustu, upprunamerkingar, hollustuhætti og afnám tæknilegra hindrana í milliríkjaviðskiptum.

Pablo Campana, ráðherra utanríkisviðskipta í Ekvador, er staddur hér á landi og skrifaði undir samninginn í morgun. Hann segir samninginn mikilvægan fyrir alla aðila.

„Samningurinn við EFTA opnar nýtt markaðssvæði fyrir nær allar útflutningsvörur Ekvador, markaðssvæði sem telur um 14 milljónir íbúa. Það eru góðar fréttir fyrir útflytjendur, framleiðendur og fjárfesta, bæði í Ekvador og innan EFTA-ríkjanna. Viðskipti milli þessara aðila eru nú þegar mikil og við gerum ráð fyrir að þau verði enn meiri eftir undirritun samningsins. Ekvador er land tækifæranna og með samningnum stígur Ekvador stórt skref nær helstu velmegunarríkjum Evrópu. Þessu til viðbótar hafa verið sett ný lög um erlendar fjárfestingar í Ekvador sem munu veita réttarvissu, fyrirsjáanleika og skattaívilnanir vegna erlendra fjárfestinga,“ segir Pablo Campana.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is