*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Erlent 13. janúar 2016 18:16

'El Chapo'-skyrtan selst eins og heitar lummur

Viðtal Sean Penn við eiturlyfjabaróninn hefur komið sér einstaklega vel fyrir einn skyrtuframleiðanda í Los Angeles.

Ritstjórn
Myndin er skjáskot af heimasíðu Barabas Men.

Mexíkóski eiturlyfjabarónninn Joaquin 'El Chapo' Guzman kom fram í viðtali við Rolling Stone nýlega þar sem hann gorti sig af því að vera sá maður sem seldi hvað mest af eiturlyfjum á plánetunni.

Leikarinn frægi Sean Penn tók viðtalið við hann, en til að sanna fyrir Rolling Stone að hann hefði raunverulega hitt Guzman bað hann um að fá mynd af þeim saman. 

Guzman hefur síðan verið handtekinn, en myndin hefur farið eins og eldur í sinu um netheima. Guzman er klæddur í bláa skyrtu með lóðréttum bláum röndum. 

Fyrirtæki að nafni Barabas Men, staðsett í Los Angeles í Kaliforníuríki, framleiðir þessa tilteknu skyrtu, en í kjölfar birtingar myndarinnar hefur fyrirtækið varla haft undan eftirspurn - allir vilja eignast 'El Chapo' skyrtuna.

Til að mynda hrundi vefsíða Barabas í gær vegna þess að of margir reyndu að panta skyrtuna á sama tíma.

Hægt er að panta sér flíkina frægu hér, en hún kostar litla 128 bandaríkjadali, eða 16.640 krónur - verð hennar hefur hækkað í kjölfar eftirspurnarinnar.