„Ég hætti á toppnum, eins og konan mín sagði,“ segir Óskar Már Alfreðsson, sem er betur þekktur undir viðurnefninu „El Normale“, en hann er hættur hjá Domusnova fasteignasölu og hefur selt hlut sinn í félaginu.

„Ég er búinn að starfa fyrir þetta félag í 11 ár og átt 50% hlut í félaginu í 9 ár. Það var kominn tími á nýja áskorun og nú er maður bara að mála bústaðinn og sinna börnunum,“ segir Óskar léttur í lund og bætir við að stórkostlegt starfsfólk Domusnova standi helst upp úr eftir tíma sinn hjá fasteignasölunni.

Domusnova fasteignasala var stofnuð árið 2011, en Óskar og Víðir Arnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri fasteignasölunnar, keyptu hana árið 2013. Nú hefur Víðir keypt hlut Óskars og heldur nú á 100% hlut í félaginu. „Ég verð þarna til halds og trausts til áramóta á bak við tjöldin,“ en Óskar segist ekki vita hvað komi næst.

Hann segir gaman að hafa náð að stríða „stóru risunum“ á markaði. „Það er ekkert smá magn af eignum sem hefur farið í gengum stofuna okkar og hún hefur vaxið hratt. Hún er með þrjú útibú í dag og þrjátíu starfsmenn og má segja að maður láti eftir sig fullvaxta barn. Það er líka gaman að hafa náð að stríða stóru risunum aðeins, maður var ekki beint tekinn alvarlega til að byrja með,“ bætir Óskar við.