Það kemur kannski spánskt fyrir sjónir að ræða um heppilegar tímasetningar þegar kemur að fjármála- og gjaldeyriskreppu í litlu opnu hagkerfi. Samt er það svo að ytri aðstæður þess ástands sem nú er komið upp í íslenska hagkerfinu gætu ekki verið óhagstæðari: Fjármálakerfi Evrópu logar nánast stafnanna á milli og þar af leiðandi þarf að slökkva elda víðar en hér á landi.

Eins og breska blaðið Financial Times sagði frá vefsíðu sinni fyrir stuttu að þýska ríkisstjórnin vinni nú af því að tryggja allar bankainnistæður sem eru í eigu einstaklinga í landinu. Til þessarar aðgerðar er gripið til þess að koma í veg fyrir að ef að björgun fasteignabankans Hypo tekst ekki verði það ekki til þess að fjársturlun grípi sig meðal Þjóðverja og áhlaup verði gerð á banka á morgun. Aðgerðin er ekki ólík þeirri sem írsk stjórnvöld gripu til í síðustu viku. Þá brugðust þau við þverrandi trausti á írska bankakerfið með því að tryggja bæði innistæður og skuldbindingar helstu banka Írlands. Ákvörðunin er ekki óumdeild enda þykir ljóst að hún stangist á við samkeppnislög á Evrópska efnahagssvæðinu enda er ekki annað að sjá en að til að mynda samkeppnisstaða útibúa írskra banka á Englandi sé sterkari en þarlendra miðað við tryggingu ríkisins. Þess má geta að grísk stjórnvöld hafa jafnframt gripið til sambærilegra aðgerða.

Þýsku, grísku og írsku fordæmin sýna að svo ekki um sé um villst að það er verkefni einstakra stjórnvalda að fást við þá bankakrísu sem nú er kominn upp. Er þetta merkileg staðreynd í ljósi þess að evrópski bankamarkaðurinn er ekki takmarkaður af landamærum vegna tilvistar Evrópska efnahagsvæðisins. Þrátt fyrir að ríkisstjórnir Belgíu, Lúxemborgar og Hollands hafi stillt saman strengi sína við björgunartilraunir á Fortis verður að hafa í huga að ríkin þrjú eiga sér langa sögu af nánu samstarfi.

Evrópa stendur sem sagt frammi fyrir bankakreppu sem hefur þau einkenni að helstu bankarnir á evrópska efnahagssvæðinu starfa í fleiri en einu ríki en að sama skapi fyrirfinnst ekki sameiginlegur vettvangur í Evrópusamrunanum til þess að grípa til samhæfðra aðgerða. Þess misskilnings hefur gætt í umræðu hér á landi að Evrópski seðlabankinn gegni hlutverki þrautalánveitenda á evrusvæðinu. Svo er ekki og hugsanlega er langt í það að svo verði. Hann á að vísu í endurhverfum viðskiptum við einstaka lánastofnanir en sú staðreynd að eftir að hann víkkaði út veðheimildir í kjölfarið á að lánsfjárkreppan skall á myndaðist óánægja með að sum ríki högnuðust hlutfallslega meira af því en önnur bendir til þess að langt er þangað til að hann gegni slíku hlutverki. Einstaka ríki eru því að fást við þá bankakreppu sem er kominn upp í stað þess að gripið er til samhæfðra aðgerða á vettvangi Evrópusambandsins. Þetta er augljóslega slæmt í ljósi þess hversu samofinn evrópski bankamarkaðurinn er. Ljóst er að viðbrögð á borð við þau sem írsk stjórnvöld sýndu – og allt lítur út fyrir að þýsk muni grípa til einnig – geta komið illa við evrópska bankamarkaðinn í heild sinni þótt að þau kunni að vera ofureðlileg þegar horft er málið útfrá hagsmunum einstakra ríkja.

Sökum þess að lengra tekur að nást samstöðu um samhæfðar aðgerðir  á vettvangi Evrópusambandsins er líklegra að þróun næstu daga muni einkennast af björgunaraðgerðum einstakra þjóðríkja. Bregðist eitthvað ríki við með afkáralegum hætti kann það að grafa undan evrusvæðinu sem heild. Ekkert er hægt að spá um það að svo komnu máli. Hinsvegar er ljóst að afar ólíkegt er að gripið verði til epískrar aðgerðar á borð við þær sem Bandaríkjaþing hefur samþykkt. Um slíkt er engin samstaða meðal valdamestu ríkja sambandsins. Eins og bent var á í nýlegri umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar vilja frönsk stjórnvöld slík viðbrögð en það sama er ekki upp á teningnum í Bretlandi og Þýskalandi – en lánsfjárkreppan hefur haft mun meiri áhrif á fjármálafyrirtæki síðarnefndu ríkjanna.

Á meðan að hlutirnir gerast jafn hratt og raun ber vitni þá er ljóst brugðist verður fyrst og fremst við á vettvangi einstakra stjórnvalda í Evrópu. Hugsanlega það versta sem gæti komið fyrir miðað við þá staðreynd að vandinn er allra.