Hagnaður Eldofnsins í Grímsbæ jókst um 23% á síðasta ári frá því fyrra, eða úr rúmlega 8,3 milljónum í tæplega 10,3 milljónir króna. Jókst salan hjá félaginu um 4,3% á milli ára, úr 171,8 milljón króna í 179,2 milljónir. Að auki fékk félagið um 870 þúsund krónur í tjónabætur sem ekki eru skýrðar frekar, en í apríl á síðasta ári var félagið dæmt til að greiða um 700 þúsund krónur í skaðabætur og málskostnað vegna brotinnar tannar viðskiptavinar.

Rekstrarkostnaður félagsins jókst um 4,1% á milli ára, úr 157,2 milljónum króna í 163,8 milljónir. Eigið fé félagsins stóð nánast í stað milli ára, hækkaði úr rúmlega 14,1 milljón í tæplega 14,4 milljónir, meðan skuldir þess lækkuðu úr 33,5 milljónum í tæplega 23,4 milljónir, og því fóru heildareignirnar úr rúmum 47,6 milljónum í tæpar 37,7 milljónir. Eigendur félagsins eru þau Ellert A. Ingimundarson, Eva Karlsdóttir og fjölskylda.