Enn sér ekki fyrir endann á útgönguferli Bretlands úr Evrópusambandinu, þrátt fyrir að því hafi upphaflega átt að ljúka í lok mars á þessu ári. Theresa May, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, eyddi bróðurparti embættistíðar sinnar í að semja við sambandið um hvernig útgöngunni skyldi háttað, en þegar á hólminn var komið tókst henni ekki að sannfæra breska þingið um ágæti samningsins, og sagði loks af sér síðasta sumar eftir að honum hafði verið hafnað í þrígang fyrr á árinu.

Arftaki hennar, Boris Johnson, samdi á ný við sambandið, en tókst heldur ekki að koma sínum samningi í gegnum þingið, og nú hefur verið boðað til þingkosninga.

Öld átaka
Það sem helst stóð í andstæðingum útgöngusamnings May var hin svokallaða norður-írska varaáætlun (e. backstop). Norður-Írland er sem kunnugt er hluti af Bretlandi, en restin af eyjunni tilheyrir írska lýðveldinu, sem er aðili að Evrópusambandinu.

Allt frá því Írland – að Norður-Írlandi undanskildu – fékk sjálfstæði á fyrri hluta 20. aldarinnar eftir blóðuga uppreisn og borgarastríð hefur verið deilt um hvort eyjan öll ætti að sameinast undir fána hins írska lýðveldis. Norður-Írar eru hins vegar að meirihluta til mótmælendatrúar, líkt og Bretland, á meðan Írar eru almennt kaþólskrar trúar.

Af þeim og fleiri sökum eru margir Norður-Írar hatrammlega mótfallnir sameiningu við Írland, og á 20. öld var mikill ófriður á norðurhluta eynnar, svo kalla mætti stríðsástand. Átökunum lauk loks þegar sáttmáli var undirritaður á föstudaginn langa 1998, sem síðar hefur verið kenndur við hátíðisdaginn. Landamæri Norður-Írlands og Írlands eru þó eftir sem áður viðkvæmt málefni, og ljóst var frá upphafi að snúið yrði að útfæra málefni Norður-Íra þegar þeir ganga með Bretum úr Evrópusambandinu.

Yrðu áfram á innri markaði
Lausnin sem lagt var upp með í útgöngusamningi Theresu May við Evrópusambandið var að Bretland í heild sinni yrði áfram hluti af innri markaði Evrópu þar til báðir aðilar sammæltust um að þess væri ekki lengur þörf. Hugmyndum um að NorðurÍrland yrði áfram hluti innri markaðarins, en ekki meginland Bretlands, hafði þá verið hafnað, að miklu leyti vegna andstöðu Lýðræðislega sambandssinnaflokksins (e. Democratic Unionists Party).

Útgöngusinnar innan raða Íhaldsflokksins óttuðust hins vegar að varaáætlunin yrði notuð til að halda Bretum innan innri markaðarins um ókomna tíð, enda þyrftu þeir samþykki Evrópusambandsins til að yfirgefa hann.

Varaáætlunin endurskoðuð
Mesta breytingin í Samningi Johnson frá samningi May var varaáætlunin. Nú skyldi Norður-Írland fylgja Bretum út úr innri markaði Evrópu, en tilteknar Evrópureglur myndu áfram gilda um vörur þar. Framfylgd þeirra reglna væri á höndum breskra yfirvalda og færi fram á Norður-Írlandi sjálfu.

Breskir tollar yrðu lagðir á vörur sem til Norður-Írlands kæmu frá löndum utan innri markaðarins, væru þær metnar ólíklegar til að enda á innri markaðnum, en þær sem kynnu að rata þangað yrðu tollaðar í samræmi við það. Í því sambandi yrði settur saman vörulisti til aðgreiningar. Þá yrðu persónulegir munir undanþegnir tollum innri markaðarins. Þetta fyrirkomulag yrði svo borið reglulega undir norðurírska þingið til staðfestingar, en yrði því hafnað væru gefin tvö ár til að finna nýja lausn.

Greining breskrar hugveitu á samningunum tveimur komst að þeirri niðurstöðu að breska hagkerfið yrði um 3,5% smærra að áratug liðnum í samanburði við áframhaldandi veru í sambandinu ef gengið yrði að samningi Johnson, en samningur May hefði þýtt 3% samdrátt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .