SpaceX, eldflaugaþróunarfyrirtæki Elon Musk, gerði í gær tilraun til að lenda eldflaug sem hafði farið á sporbraut um jörðina. Eldflaugin átti að lenda á fjarstýrðu skipi, eins konar hafdrón.

Eitthvað fór afskeiðis, hvort sem var í útreikningum eða aðstæðum, sem gerði það að verkum að eldflaugin rann til á lendingarbúnaði sínum. Hún féll kylliflöt á hafdrónið og sprakk í loft upp með miklum látum.

Musk birti myndband af misheppnuðu lendingunni á Instagram -síðu sinni, en þar segir hann orsök klúðursins líklega hafa verið ísingu á lendingarpallinum, sem kom í veg fyrir að eldflaugin gæti komið sér fyrir í læsta stöðu.

Óhappið var ekki ódýrt, en hver og ein eldflaug kostar ríflega 9-11 milljarða króna í smíðum.