Norður-Kóreumönnum mistókst að skjóta á loft eldflaug á afmælisdag Kim Il Sung, afa Kim Jong-Un, snemma morguns í dag. Þetta kemur fram á fréttaveitu Bloomberg, en heimild þeirra er suður-kóreska varnarmálaráðuneytið.

Eldflauginni átti að skjóta í tilraunaskyni, en hún hefur að mati sérfræðinga þrjú þúsund kílómetra drægni eða svo. Með slíka drægni gæti hún hæft herbúðir Bandaríkjamanna í Japan og Gúam - þrátt fyrir að efasemdir ríki um hve nákvæmur tæknibúnaður eldflauganna er í raun.

Á síðustu misserum hafa Norður-Kóreumenn gert þó nokkrar tilraunir með kjarnorkuvopn - alls fjögur talsins - en slíkt er stranglega bannað samkvæmt sáttmálum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn eiga að sögn í viðræðum um að koma á laggirnar and-eldflaugakerfi við landamæri norðurs og suðurs, sem væri fært um að skjóta eldflaugar niður í miðju lofti.