Flugvellir víða um Evrópu eru sem óðast að lokast vegna ösku frá gosinu í Eyjafjallajökli. Samkvæmt frétt á vefsíðu Bloomberg hafa flugyfirvöld í Bretlandi gefið út aðvörun um að líklegt sé að öllum flugvöllum í og við London verði lokað þegar líður á daginn.

Eldfjallaaska í háloftunum er hættuleg þotuhreyflum og taka flugyfirvöld því enga áhættu. Flugvellir í Aberdeen, Edinborg og Glasgow eru nú lokaðir og því engar flugssamgöngur til og frá Skotlandi. Flugvellir í Noregi eru lokaðir og  var Gardemoen flugvelli rétt utan við Osló lokað klukkan 10 í morgun að staðartíma. Þá hefur Norwegian Air Shuttle, fjórða stærsta lággjaldafélag Evrópu aflýst yfir 100 flugu í dag.

Í Svíþjóð er þegar búið að loka flugvöllunum í Kiruna, Luleaa, Oestersund og Skellefteaa. Arlanda flugvöllur í Stokkhólmi mun þó enn vera opinn.

Um 20 flugum hefur þegar verið aflýst frá flugvellinum í Kaupmannahöfn, en flugvellir í Finnlandi eru enn opnir.

Fjölda fluga frá Amsterdam í Hollandi og Schipol flugvelli hefur verið aflýst. Ryanair og Easy Jet , tvö af stærstu lággjaldafélögum Evrópu hafa bæði varað við truflunum á flugi. Þá hefur japanska félagið Nippon Airways, sem er stærsta skráða flugfélagið í Asíu, frestað flugi til London, Parísar og Frankfurt.

Continental Airline hefur seinkað flugi og gerir ráð fyrir að endurskipuleggja sitt flug til Bandaríkjanna frá Evrópu.

Þýska flugfélagið Lufthansa hefur frestað og aflýst fjölda fluga til og frá Bretlandi. Þá Emirate aflýst 10 flugum til Heatrow flugvallar í London, Gatwick, Manchester, Newcastle og Birmingham.

Flugvöllurinn í Manchester hefur vísað öllu flugi fram til klukkan eitt í dag að minnsta kosti vegna eldfjallaöskunnar og á Gatwick flugvelli við London er þegar búið að aflýsa 89 brottförum.