Tekjur hestaleigunnar Eldhesta ehf. námu tæpum 67 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagsins og hagnaðist félagið um 27,7 milljónir króna á árinu. Tekjur jukust frá árinu 2013 um níu prósent en hagnaður dróst lítillega saman á árinu. Munar þá þó nokkru um endurútreikning langtímalána og gengismunar en þær stærðir bættu samtals um 25 milljónum við fjármunatekjur félagsins árið 2013 samanborið við rúmar fimm milljónir sem þær gáfu af sér árið 2014.

Samtals námu eignir félagsins 481 milljónum í lok síðasta árs og skuldir þess um 304 milljónum á sama tíma. Stærstu eigendur Eldhesta eru þeir Hróðmar og Sigurjón Bjarnasynir með 21,1% hlut hvor en á eftir þeim kemur Þorsteinn Hjartarson framkvæmdastjóri þess með 11,87% hlut.