Kristín Soffía Jónsdóttir er fráfarandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar en hún tekur við starfi framkvæmdastjóra Icelandic Startups í júní.

„Áhugi minn á umhverfismálum kviknaði þegar ég var að ferðast í Bangladess og kynntist ungum frumkvöðlum sem voru að hreinsa arsenik úr grunnvatni með því að byggja rauðamölsturna. Mér fannst þetta alveg magnað. Mér þykir gríðarlega mikilvægt að við búum þannig um hnútana að við getum lifað áfram góðu lífi án þess að ganga á lífsgæði komandi kynslóða og þar held ég að nýsköpun skipti miklu máli. Ég kynntist Icelandic Startups í haust þegar ég, ásamt öðrum, stofnaði Hringiðu, hraðal sem leggur áherslu á sprota byggða á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Þegar Salóme tilkynnti í byrjun árs að hún væri að láta af störfum ákvað ég eiginlega strax að sækja um," segir Kristín.

Kristín hefur lítinn áhuga á félagsstörfum og tilviljun ein leiddi hana í Samfylkinguna á sínum tíma. „Fólk talar oft um að það sé félagsmálatröll en það má segja að ég sé félagsmáladvergur. Mér finnst félagsstörf yfirhöfuð ekki spennandi og tók ekki þátt í skipulögðu félagsstarfi yfirhöfuð, ekki einu sinni í húsfélaginu hjá okkur," segir hún hlæjandi.

Ferill hennar í Samfylkingunni hófst með eldræðu pirraðrar ungrar konu í hruninu. „Ég var bara frekar pirruð ung kona úti að hlaupa í upphafi bankahrunsins þegar ég hringdi í pabba, voða reið yfir því að verðtryggingin væri að fara að hækka lánið mitt. Hann segir mér að fara bara niður á Hallveigarstíg, þar væri fundur um lánamál. Þannig að ég fór þangað, hálf sveitt og reið, hélt einhverja ræðu og strunsaði út. Dagur elti mig út og þar með hófst minn ferill í Samfylkingunni."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .