Hlutabréf í Kauphöll Íslands hafa mörg tekið dýfu í fyrstu viðskiptum í morgun. Lækkanirnar koma í kjölfar mikilla lækkana hlutabréfaverðs beggja vegna Atlantshafs, sér í lagi á hlutabréfaverði fjármálafyrritækja.

Upphaf lækkanna eru raktar til uppgjörs Silicon Valley Bank í Bandaríkjunum.Hlutabréfaverð bankans lækkaði um yfir 60% í gær eftir að bankinn boðaði hlutafjáraukningu vegna fjárhagserfiðleika. Bankinn hefur gert út á viðskipti við sprota- og tæknifyrirtæki í en vaxtahækkanir að undanförnu hafa grafið undan fjármögnunarmöguleikum þeirra.

Í Kauphöll Íslands hefur Eimskip lækkað um rúm 4,4% í fyrstu viðskiptum, Alvotech um 3,2%, Arion banki um 2,7%, og Íslandsbanki um tæplega 1% og Kvika um 1,5%. Þá hefur úrvalsvísitalan lækkað um 1,7%.

Erlendis eru áhyggjur uppi um að fleiri bankar fylgi í fótspor Silicon Valley Bank og tilkynni afskriftir á skuldabréfasöfnum sínum. Hlutabréfaverð stærstu banka Bandaríkjanna lækkaði í gær og hafa evrópskir bankar fylgt í kjölfarið í dag. Reuters segir frá því að bankavísitala hinnar evrópsku STOXX vísitölu hafi lækkað um yfir 4% í dag og stefni í mestu lækkun á einum degi síðan í júní. Þannig hafi hlutabréfaverð Deutsche Bank lækkað um 7,9% og HSBC lækkað um 4,5%.