Hlutabréf í Kauphöll Íslands lækkuðu í fyrstu viðskiptum í morgun líkt og víða erlendis eftir fregnir af nýju afbrigði kórónuveirunnar. Öll félög sem viðskipti hafa verið með í dag hafa lækkað.

Hlutabréfaverð Icelandair féll um 11% í allra fyrstu viðskiptum en lækkun dagsins stendur nú í 5% og hitt flugfélagið á markaði Play hefur lækkað um 2,8%. Reginn og Marel hafa lækkað næst mest eða um ríflega 3%. Þá hefur úrvalsvísitalan fallið um 2,1%.

Nýtt COVID afbrigði sem greinst hefur í Suður-Afríku, Botsvana og Hong Kong hefur valdið titringi á hlutabréfamörkuðum víða um heim. FTSE 100 vísitalan á Bretlandi hefur fallið um 2,9% og viðskipti fyrir opnun markaða í Bandaríkjunum benda til tæplega 2% lækkunar.