Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,7% í 3,9 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf átján af 22 félögum aðalmarkaðarins lækkuðu um meira en 1%. Þar af lækkuðu átta félög um meira en 3%.

Mesta veltan, eða um 650 milljónir, var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um 3,8%. Gengi Marels stóð í 504 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar og er 42% lægra en í upphafi árs.

Hlutabréfaverð Eimskips lækkaði næst mest af félögum Kauphallarinnar eða um 4% í 367 milljóna veltu og stendur nú í 530 krónum. Gengi flutningafélagsins hefur lækkað um 9,4% frá opnun markaða á föstudaginn síðasta.

Eina Kauphallarfélagið sem hækkaði í viðskiptum dagsins var Síldarvinnslan. Hlutabréfaverð útgerðarfélagsins hækkaði um 0,4% í 350 milljóna veltu og stendur nú í 118 krónum.