Hlutabréf hríðlækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar hafa fjárfestar miklar áhyggjur af frekari samdrætti í efnahagskerfinu vestanhafs.

Nasdaq og S&P 500 vísitölurnar lækkuðu báðar um 8,9% en Dow Jones vísitalan lækkaði um 7,7%.

Þá kynnti greiningaraðili á vegum Oppenheimer & Co. skýrslu sem gerir ráð fyrir því að kreditkortafyrirtæki muni á næstu misserum skera niður heimildir kortahafa um allt að 45% og minnka þannig verulega það lánsfjármagn til einstaklinga sem til er í formi greiðslukorta.

Viðmælandi Bloomberg gerir ráð fyrir að það muni draga en frekar úr einkaneyslu í Bandaríkjunum.

Rétt er að minna á að síðasta vika var besta vika S&P 500 vísitölunnar í 14 ár þar sem hún hækkaði um 12% í vikunni. Lækkunin í dag dregur heldur betur úr því stökki.

Þá segir Bloomberg að allar tölur gefi til kynna að framleiðsla í Bandaríkjunum fari minnkandi. Við þessar fréttir lækkuðu félög á borð við General Electric og Caterpillar um tæp 10%.