Hlutabréf í Evrópu hafa hríðlækkað það sem af er degi en að sögn Reuters má búast við því að nokkur samdráttur muni eiga sér stað á Bretlandi næstu misseri og má rekja lækkun dagsins til þess.

Nú um klukkan níu í morgun að íslenskum tíma hafði FTSEurofirst 300 vísitalan lækkað um 6,2% en hafði þó fyrr í morgun lækkað um 7%.

Bankar eru nokkuð fyrirferðamiklir í lækkunum dagsins. Þannig hefur HSBC lækka um rúm 10%, Santander um 8%, Barclays um 10,8% og Credit Agricole um 7%.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 5,7% í morgun, í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 6,6% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 7%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 6,5% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 5,4%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 5,7%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 7% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 7,7%.