Hlutabréfamarkaðir hafa hríðlækkað í Evrópu nú í morgunsárið og eru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða miklar lækkanir dagsins.

Að sögn Reuters fréttastofunnar eru vaxandi áhyggjur meðal fjárfesta að mikil uppstokkun muni eiga sér stað á næstu dögum og vikum og þá helst með afskiptum opinbera aðila, líkt og gerst hefur hér á Íslandi og stendur til að gera í Bretlandi.

Nú þegar markaðir hafa flestir hverjir verið opnir í rúma klukkustund hefur FTSEurofirst 300 vísitalan lækkað um 5% og hefur því ekki verið lægri í fjögur ár. Ef fer sem horfir hefur vísitalan lækkað um 11% þá þrjá daga sem liðnir eru af þessari viku en á mánudag lækkaði hún um 7,8% sem var mesta dagslækkun í tæpan áratug.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 4,6%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 6,9% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 6%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 5,6% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 5,8%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 8%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 6,6% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 8,4%.