Af þeim sem eru án atvinnu hefur helmingurinn verið það í meira en hálft ár. Konum yfir fimmtugt reynist sérstaklega erfitt að finna nýtt starf missi þær vinnuna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Karl Sigurðsson, vinnumarkaðssérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir að því lengur sem fólk er atvinnulaust, því erfiðara getur reynst að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Hann segir því ráðgjöf, vinnumarkaðsaðgerðir og starfsendurhæfing mikilvægan þátt í þjónustu við atvinnulausa. Karl segir að atvinnulausum konum sem orðnar eru fimmtugar eða eldri reynist sérstaklega erfitt að finna nýja vinnu.

Um þessar mundir eru rúmlega 500 konur fimmtugar eða eldri skilgreindar langtímaatvinnulausar, þar af hafa rúmlega 330 verið á atvinnuleysisskrá í meira en ár. Karlarnir eru talsvert færri, nú eru um 400 karlar eldri en fimmtugir skráðir langtímaatvinnulausir.