Á dögunum sagði Viðskiptablaðið frá því að hjónin Ása María Reginsdóttir og Emil Hallfreðsson, ásamt Gleðipinnum, myndu á vormánuðum opna nýjan pizzustað á Suðurlandsbraut , þar sem Eldsmiðjan er til húsa í dag, OLIFA - La Medre Pizza. Eldsmiðjan, sem hefur fylgt Íslendingum síðan 1986, mun samhliða opnun OLIFA - La Madre Pizza kveðja landsmenn um óákveðinn tíma.

„Okkur Gleðipinnum þykir afar vænt um Eldsmiðjuna og það má segja að hún sé að fara í ótímabundið frí. Vörumerkið er rótgróið og sterkt og við munum að sjálfsögðu varðveita það áfram,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna.

Gleðipinnar reka fyrir pizzastaðina Blackbox og Shake&Pizza og á nýju ári bætist OLIFA - La Madre Pizza í Gleðipinnafjöskylduna. „Pizzamarkaðurinn hefur þróast mikið og breyst á liðnum árum og Eldsmiðjan í núverandi mynd féll ekki fullkomlega að framtíðarsýn okkar Gleðipinna. Okkur finnst gaman að gera nýja og skemmtilega hluti og þess vegna fannst okkur tilvalið að nýta Eldsmiðjustaðinn á Suðurlandsbraut undir OLIFA - La Madre Pizza. En þó að Eldsmiðjan sé farin í frí þá er aldrei að vita nema hún skjóti upp kollinum aftur síðar," bætir Jóhannes við.

Eldsmiðjan var upphaflega opnuð á Bragagötu árið 1986, fyrir 35 árum, af hjónunum Elíasi Hauki Snorrasyni og Lilju B. Karlsdóttur.

Eldsmiðjan var lengi vel meðal vinsælustu pizzastaða þjóðarinnar. Staðurinn var framan af einungis á Bragagötunni en síðar bættust við nýir veitingastaðir á Suðurlandsbraut, Laugavegi, Dalvegi í Kópavogi og bensínstöð N1 á Ártúnshöfða. Gleðipinnar hafa rekið Eldsmiðjuna frá árinu 2019.

Í Covid kreppunni var stöðunum í miðbænum á Laugavegi og Bragagötu lokað og Suðurlandsbraut stóð þá ein eftir.