Icelandair greiðir nú hærra verð en heimsmarkaðsverð fyrir eldsneyti á vélar sínar vegna framvirkra samninga sem félagið gerði til að verja sig gegn of miklum sveiflum á olíuverði.

Þetta kemur fram í fjárfestakynningu félagsins, en þar kemur fram að 47% af birgðum félagsins næstu 12 mánuðina miðist við verðið 701 Bandaríkjadalur á tonnið, meðan heimsmarkaðsverðið á flugvélaeldsneyti er nú í um 668 dali tonnið að því er Morgunblaðið greinir frá. Þarna munar 33 dölum á tonnið.

Um er að tölur frá kynningu Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur framkvæmdastjóra fjármála Icelandair sem hún hélt fyrir fjárfestum í gærmorgun, en þar kom einnig fram að eldsneytisvarnir sem félagið hefur keypt 13 til 18 mánuði fram í tímann nema um 3% af ætlaðri notkun.

Þær tryggja eldsneytið hins vegar á 675 dali á tonnið. Þegar borið er saman meðalheimsmarkaðsverð og meðalverð flugfélagsins fyrir hvern af fimm síðustu ársfjórðungum sést að verðin eru mun nær hvoru öðru á síðasta ársfjórðungi en á hverju þriggja mánaða tímabili árið 2018.

Þannig er meðalheimsmarkaðsverðið sagt í kynningunni vera 627 dalir á tonnið fyrstu þrjá mánuði þessa árs meðan meðalverð félagsins hafi verið 628 dalir.

Hér má sjá samanburðinn fyrir hvert tímabil:

  • Q1 2018 - Meðalheimsmarkaðsverð 646 dalir en meðalverð félagsins 593 dalir
  • Q2 2018 - Meðalheimsmarkaðsverð 708 dalir en meðalverð félagsins 616 dalir
  • Q3 2018 - Meðalheimsmarkaðsverð 711 dalir en meðalverð félagsins 624 dalir
  • Q4 2018 - Meðalheimsmarkaðsverð 675 dalir en meðalverð félagsins 624 dalir
  • Q1 2019 - Meðalheimsmarkaðsverð 627 dalir en meðalverð félagsins 628 dalir

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var tap Icelandair á fyrsta ársfjórðungi ársins um 6,7 milljarðar króna, samhliða 7% tekjusamdrætti. Hins vegar jókst farþegafjöldi félagsins um 19% milli ára í apríl , og nam farþegafjöldinn 318 þúsund manns. Jafnframt jókst sætanýtingin milli ára úr 77,2% í 83,7%.