*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 8. október 2021 11:19

Eldsneytið hækkað um 15% á árinu

Verð á eldsneyti lækkaði skarpt þegar farsóttin tók yfir daglegt líf en hefur hækkað skarpt eftir það.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Það sem af er ári hefur verð á eldsneyti hækkað um í kringum 15% á bensínstöðvum landsins. Kostar lítrinn af bensíni nú allt að 267 krónur en líter af dísel tæpar 252 krónur þar sem mest er.

Sem kunnugt er féll verð á eldsneyti talsvert þegar farsóttin náði hér ströndum. Í upphafi síðasta árs var verðið á bensínlítranum hæst 243 krónur en féll skarpt í mars. Þá fóru Olís, Orkan N1, Dælan, Skeljungur, ÓB og Atlantsolía öll niður að um 210 krónum á líterinn. Dælan fór rétt niður fyrir 200 krónur og Costco bauð lægsta verðið eða rétt rúmar 180 krónur. Rétt er að geta þess að inni í þeirri tölu er ekki tekið tillit til kostnaðar við áskrift.

Verðið hækkaði aftur þegar leið á sumarið síðasta en var síðan nokkuð stöðugt til ársloka. Þó hækkaði verðið eilítið í nóvember og desember.

Síðan þá hefur verðið hækkað á öllum stöðvum. Verðdreifingin er á ný svipuð eftir stöðvum en Dælan býður nú 245 krónur á bensínlítrann og Costco tæpar 220 krónur. Ekki er tekið tillit til mögulegra afslátta eða vildarkjara sem viðskiptavinum kunna að bjóðast.

Hækkunin kemur ekki á óvart í ljósi hækkandi heimsmarkaðsverðs á jarðefnaeldsneyti það sem af er ári en það hefur nærri tvöfaldast.