*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 24. apríl 2020 09:40

Eldsneytissala dregist saman um 68%

Sala á eldsneyti á bensínstöðvum hefur dregist saman um 68% í apríl milli ára samkvæmt nýrri tölfræði Hagstofunnar.

Ritstjórn

Áætluð sala á eldsneyti í rúmmetrum á bensínstöðvum í lok mars 2020 var 42% lægri en meðal dagleg sala í mars 2019. Þá er meðalsala á dag sem af er apríl er 68% lægri en meðal dagleg sala í apríl í fyrra samkvæmt nýrri tilraunatölfræði Hagstofu Íslands.

Í aðdraganda þess að samkomubann var sett á þann 15. mars var sala eldsneytis um 8% hærri en meðal salan í mars 2019.

Dagana fyrir samkomubann voru rúm 9% af sölu eldsneytis á erlend greiðslukort, en um miðjan mánuðinn var hlutur þeirra undir 1% af heildar sölu. Eftir að samkomubann var sett á dró úr sölu eldsneytis nokkuð stöðugt á milli vikna, en nokkur aukning í sölu mælist í byrjun apríl.

Upplýsingarnar byggja á gögnum frá íslenskum færsluhirðum og innahalda alla kredit- og debetkortanotkun, en ná ekki yfir kaup með reiðufé, inneignarkortum eða viðskiptakortum sem gætu verið á vegum annarra en lykil færsluhirða. Eldsneytisverð er byggt á söluverði á um 70 bensínstöðvum.

Hagstofan bendir einnig á að sala á öðrum vörum en eldsneyti geti reiknast með í gögnunum, en áætlað er að slík sala nemi aðeins um 6% af heildar veltu á bensínsstöðvum (utan veitingastaða, þvottastöðva og annarrar þjónustu). Rúmlega 70% af sölutölum eru frá bensínsjálfsölum.

Stikkorð: Eldsneyti bensín